Fyrstu ár bátsins

1990. Magnús SH 205 nýbyggður.

Ölver ís 38 er 77 tonna stálbátur byggður árið 1990. Nafnið Ölver kemur úr þjóðsögunni um höfðingjann Ölver sem bjó við Ísafjarðardjúp ásamt bræðrum eða fóstbræðrum sínum þeim Straum og Flosa. Þeir bræður mæltu svo um að þeir skyldu heygðir hver á sínum stað en þó svo að þeir gætu séð hver til annars. Skyldu þeir svo vera hollvættir þess svæðis sem á milli þeirra væri. Ölver er heygður inn af Hvassaleyti á Stigahlíð í haug einum sem kallaður er Ölvishaugur. Straumur er heygður á Straumnesfjalli, norðan Ísafjarðardjúps og andspænis Ölver. Flosi er síðan heygður inn á Langadalsstrandarfjöllum að talið er upp af Hamri. Svæðið á milli þeirra bræðra er allt Ísafjarðardjúp og er þar af leiðandi allt undir þeirra vernd.

Fyrstu breytingarnar

Ölver hét upphaflega Magnús SH 205 og í rúm 20 ár var hann gerður út á línu og netaveiðar. Báturinn þótti vel byggður og afburða gott sjóskip. Þegar bátnum var hleypt af stökkunum var hann aðeins 9,9. Tonn að stærð. Strax árið 1992 var ráðist í breytingar á honum þegar byggt var yfir bátinn og hann breikkaður.

Stærri Magnús SH 205 árið 1997

Árið 1997 var aftur ráðist í breytingar á bátnum og hann lengdur og breikkaður enn meira. Þetta stækkaði vinnusvæðið um borð og bætti alla vinnuaðstöðu fyrir áhöfnina.

brú og framstafn

Árið 2000 fór báturinn í sína síðustu stóru breytingu þegar byggt var nýtt stefni og brú. Þegar bornar eru saman myndir frá árinu 1990 og myndir sem teknar voru af bátnum núna, er vægast sagt erfitt að átta sig á því að þetta er sami báturinn, slíkar eru breytingarnar.

Nýtt hlutverk Ölvers

Til að geta sinnt sínu nýja hlutverki sem farþegabátur þurfti enn að gera nokkrar breytingar á bátnum. Búið er að fjarlægja öll veiðarfæri og öll þau tæki og tól sem tengjast fiskveiðum. Á millidekkinu sem er ca. 40 fermetrar, er búið að innrétta farþegasal með bekkjum og tveimur klósettum. Á efra dekki er einnig búið að koma fyrir bekkjum og breyta bátnum þannig að hægt er að ganga fram á stefni hans beggja megin við brúnna. Einnig var settur stigi af efra dekki niður á milli dekk til að auðvelda umgang.