Bærinn okkar

isafjördur

Ísafjörður

Ísafjörður, höfuðstaður Vestfjarða, stendur í Skutulsfirði við Ísafjarðardjúp. Bærinn stendur á lágri eyri sem skagar út í fjörðinn og myndar eitt allra besta hafnarstæði landins. Fyrsti maðurinn til að setjast að í firðinum er talin hafa verið Helgi Hrólfsson. Helgi var fæddur í Noregi og ólst þar upp. Faðir Helga, Hrólfur Helgason var landnámsmaður í Eyjafirði og þegar Helgi varð fullorðin fór hann til Íslands að leita ættmenna sinna. Skemmst er frá því að segja að Helgi fékk ekki þær móttökur hjá föður sínum sem hann hafði vonast eftir og hraktist hann til Vestfjarða. Eftir að hafa eytt vetrinum í Súgandafirði fór Helgi að leita sér bústaðar í Ísafjarðardjúpi þar sem enn var ónumið land. Sagan segir að hann hafi fundið skutul í flæðarmáli í firði einum og hafi ákveðið að setjast þar að og nefndi hann fjörðinn Skutulsfjörð.

Líkt í öðrum bæjum við ströndina snérist lífið um fiskveiðar á Ísafirði. Gott hafnarstæði og nálægðin við gjöful fiskiðmið í Ísafjarðardjúpi, varð til þess að bærinn varð fljótlega miðstöð verslunar við djúp og um aldamótinn 1900 var Ísafjörður einn stærsti bær landsins.

Vestfirskir útgerðarmenn voru miklir frumkvöðlar og árið 1902 var fyrsti mótorbátur Íslendinga gerður út frá Bolungarvík. Báturinn hét Stanley og var gamall sex hestafla opinn bátur. Þessi bátur var í fararbroddi stórkostlegra breytinga á Íslandi sem fiskveiðiþjóð og hafði sitt að segja að draga þjóðina upp úr fátækt.

Ísafjörður var í fararbroddi útgerðar á Íslandi fram á 20 öldina. Ísfirskir útgerðarmenn voru fyrstir Íslendinga til að hefja vélbátaútgerð auk þess sem rækjuveiðar og vinnsla íslendinga hófst á Ísafirði. Ísfirðingar sem og aðrir Vestfirðingar hafa ekki farið varhluta af því að útgerð er áhættusamur rekstur og er atvinnugreinin í mýflugumynd í dag samanborið við þessi gullaldarár.

Ísafjarðarbær varð til við sameiningu 6 sveitarfélaga árið 1996. Þetta voru Ísafjörður, Þingeyri, Flateyri, Suðureyri, Mýrarhreppur og Mosvallahreppur. Stærst þessara sveitarfélaga var Ísafjörður en Íbúum á ísafirði fór ekki að fjölga fyrr en einokunarverslunin lagðist af árið 1788 og Skutulsfjarðareyri fékk kaupstaðarréttindi. Þá fóru norskir kaupmenn að koma sér fyrir á eyrinni og reistu þar íbúðar-og verzlunarhús. Skutulsfjarðareyri missti kaupstaðaréttindi sín til Grundafjarðar árið 1816 og endurheimti þau ekki aftur fyrr en 50 árum síðar og nefndist eftir það Ísafjarðarkaupstaður.

Undir lok 19. aldar var Ísafjörður með stærstu kaupstöðum á Íslandi. Nálægð við fengsæl fiskimið tryggði næga atvinnu, öflug fyrirtæki fluttu út saltfisk beint til Miðjarðarhafsins og bærinn var miðsvæðis í hringiðu norskra hvalveiðistöðva sem voru mjög öflugar á vestfjörðum á þessum árum.

Þrátt fyrir stærð sína, fáa íbúa og landfræðilega einangrun frá öðrum bæjum á Íslandi, hefur Ísafjörður samt sem áður ákveðinn borgaraleg einkenni. Á staðnum er einn elsti tónlistarskóli landsins, stofnaður 1948, auk héraðssjúkrahúss. Gamla sjúkrahúsið hýsir núna menningarsafn með bókasafn og sýningarsölum tileinkuðum gamla sjúkrahúsinu. Það hús var byggt árið 1925 og hannað af Guðjóni Samúelssyni, einum helsta arkitekt Íslands, og hefur þetta hús orðið eitt helsta kennimerki Ísafjarðar.

Seinasta áratuginn hefur þessi smái bær orðið þekktur sem ein helsta miðstöð tónlistar utan Reykjavíkur. Hin árlega Aldrei fór ég suður tónlistarhátið veitir hljómsveitum frá svæðinu og frá öllu landinu tækifæri, auk þess sem einstaka hljómsveitir utan úr heimi rata einnig á svið. Á Ísafirði eru líka haldnar nokkrir vinsælir íþróttaviðburðir, þar á meðal Fossavatnsgangan sem er gönguskíðakeppni, Hlaupahátíðin þar sem hlaupið er víða um Vestfirði og síðan Evrópukeppnin í Mýrabolta.

Ferðaiðnaðurinn vex á Vestfjörðum eins og annars staðar á Íslandi og hefur orðið að mikilvægri grein á svæðinu. Hin ótrúlega náttúra, mjóir firðir, brött fjöll og varpstöðvar sem eru einstakar í heiminum eru meðal þess sem gerir Vestfirðina vinsæla.

Við erum einstaklega stolt af heimabæ okkar og náttúrunni í kring og viljum bjóða ykkur öll velkomin að njóta hennar með okkur.


distance to isafjordur
icon